04.03.2016
Haukadalsvöllur hjá Golfklúbbnum Geysi er nýr vinavöllur GM árið 2016. Haukadalsvöllur er einn fegursti völlur landsins en hann liggur í einstöku landslagi nærri hverasvæðinu í Haukadal.
Völlurinn er 9 holur og er hannaður af golfvallarhönnuðinum Edwin Roald. Haukadalsvöllur er bæði skemmtilegur og krefjandi og setur lynggróður og birkikjarr skemmtilegan svip á völlinn.
Félagsmenn hjá GM geta leikið á Haukadalsvelli sumarið 2016 gegn greiðslu vallargjald, 2.500 kr fyrir 18 holur. Við hvetjum alla félagsmenn til þess að heimsækja Haukadalsvöll næstkomandi sumar.
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á vinavallasamninga fyrir árið 2016 og verða fleiri nýjir vinavellir kynntir á næstu dögum.
02.03.2016
Annað mót Liðapúttmótaraðar GM fór fram í kvöld miðvikudaginn 2. mars. Nokkur lið bættust í hópinn en alls eru 14 lið sem keppast um sigurinn. Skorin voru góð og ljóst að hart verður barist um sigurinn. Staðan að loknum 2 mótum er eftirfarandi:
Að lokum gilda svo 4 bestu mót hvers liðs af 6. Það liggur því fyrir að staðan getur breyst töluvert þegar liðin fara að henda út verstu hringjunum. Næsta mót fer fram miðvikudaginn 9. mars og er enn möguleiki fyrir ný lið að bætast við.
24.02.2016
Liðapúttmótaröð GM hófst á ný nú í kvöld en 11 lið skráðu sig til leiks. Flest af liðunum úr fyrra mótinu voru skráð til leiks en einnig voru ný lið og vel mönnuð til mætt til keppni. Eins og áður eru leikin 6 púttmót þar sem 4 bestu mótin telja. Stöðuna að loknu fyrsta móti má sjá með því að smella á eftirfarandi tengil.
Næsta mót á mótaröðinni fer fram að viku liðinni, miðvikudaginn 2. mars á milli klukkan 20 og 22. Það eru enn tækifæri til að taka þátt og hvetjum við því félagsmenn til þess að safna liði og skrá sig til leiks með tölvupósti á www.golfmos.is
24.02.2016
Á Golfþingi í nóvember var kynnt breyting á aldursflokkum eldri kylfinga en núna eru karlar skilgreindir eldri kylfingar frá 50 ára aldri. Öldunganefnd GM hefur farið yfir málin og boðað til opins fundar með eftirfarandi fundarboði. Vonumst við til þess að sem flestir félagsmenn láti sjá sig og taki þátt í starfinu af krafti strax frá upphafi.
Opinn fundur um málefni eldri kylfinga GM
Öldunganefnd GM boðar til opins fundar um málefni kylfinga eldri en 50 ára næstkomandi laugardag í Vélaskemmunni á Hlíðavelli. Fundurinn hefst kl. 11:30 eða strax að loknu púttmóti.
Á fundinum verður farið yfir hugmyndir vegna sveitakeppni GSÍ, æfingafyrirkomulag kynnt ásamt kynningu á hugmyndum varðandi GM mótaröðina 2016.
Við viljum hvetja alla kylfinga 50 ára og eldri til að mæta. Þetta á bæði við konur og karla.
Við viljum kalla saman þennan fund til að ræða málefni kylfinga 50 ára og eldri, fá tillögur ykkar og hugmyndir ásamt því að ræða um það sem ykkur liggur á hjarta vegna komandi golfsumars.
f.h. Öldunganefndar
Ásbjörn Björgvinsson, formaður
23.02.2016
Nú styttist óðum í að golfsumarið 2016 hefjist af krafti. Undirbúningur er í fullum gangi og þessa dagana er unnið að því að klára samninga við vinavelli GM fyrir komandi sumar. Búið er að ganga frá nokkrum samningum og eru enn fleiri í pípunum sem kynntir verða á næstu dögum og vikum.
Ljóst er að við hjá GM erum í góðum málum með vinavelli og stefnum á að halda áfram að bjóða félagsmönnum okkar upp á vinavelli allt í kringum landið. Eftirfarandi klúbbar eru staðfestir sem vinavellir GM fyrir árið 2016:
Listi yfir vinavelli GM er aðgengilegur á heimasíðu GM - http://golfmos.is/um_gm/vinavellir/
Listinn verður uppfærður jafnóðum og samningar við vinavelli eru ljósir. Við hvetjum félagsmenn til þess að fylgjast með og byrja strax að láta sig hlakka til sumarsins.
20.02.2016
Kári Örn Hinriksson félagsmaður í GM er látinn aðeins 27 ára gamall. Kári var félagsmaður frá 10 ára aldri og hélt mikið til á Hlíðavelli öll sín uppvaxtarár. Þrátt fyrir erfið veikindi undanfarin ár lét hann ekkert stoppa sig þegar kom að golfinu. Baráttuandi Kára var til fyrirmyndar, bæði á golfvellinum og í lífinu sjálfu.
Kára verður minnst af félagsmönnum fyrir sitt hlýja og góða viðmót en það var alltaf stutt í brosið. Kári var góður félagsmaður, afar léttlyndur og hvetjandi kylfingur og spilafélagi. Kára verður sárt saknað af öllum þeim sem voru svo heppnir að kynnast honum.
Kári verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju fimmtudaginn 25. febrúar klukkan 15:00.
Fyrir hönd félagsmanna GM sendum við fjölskyldu, ættingjum og vinum Kára okkar innilegustu samúðarkveðjur.
18.02.2016
Í gær fór fram síðasta umferðin í Liðapúttmótaröð GM. Það var ekki laust við að nokkur spenna væri mannskapnum og ljóst að liðin vildu gera allt til að bæta stöðu sína á listanum. Keppni í gær var nokkuð jöfn og mörg góð skor litu dagsins ljós.
Það voru hinsvegar Skytturnar 3 sem reyndust vera öruggastir á pútternum í þetta skiptið eins og áður. Þeir sigruðu því nokkuð sannfærandi í mótaröðinni. Í öðru sæti voru Ásarnir en þeir voru 14 höggum á eftir Skyttunum 3. Í 3. sæti urðu The Three Mustateers en þeir luku keppni 13 höggum á eftir Ásunum.
Um leið og við óskum Skyttunum 3 til hamingju með sigurinn og þökkum öllum keppendum fyrir þátttökuna minnum við á að skráning hefur verið opnuð fyrir næstu Liðampúttmótaröð. Hún verður leikin á miðvikudögum frá kl. 20.00 - 22.00 og eru 3 í liði. Tilnefna má einn varamann á meðan móti stendur. Leiknar eru 6 umferðir og munu 4 bestu telja. Hægt er að skrá sig í mótaröðina með því að senda póst á golfmos@golfmos.is en fyrsta mótið fer fram miðvikudaginn 24. febrúar.
Úrslit í Liðapúttmótaröð GM:
1. Skytturnar 3 406 högg
2. Ásarnir 420 högg
3. The Three Mustateers 433 högg
4. Mjöðhnoðrarnir 440 högg
5. 007 444 högg
6. Bakkabræður 453 högg
7. Vargar 458 högg
8. Hammers 473 högg
9. Tíglarnir 477 högg
10. Spaðarnir 478 högg
11. Þrír kóngar 482 högg
12. Púttklíkan 483 högg
15.02.2016
Síðastliðinn laugardag var púttmót í vélaskemmu GM á Hlíðavelli eins og ávallt. 37 kylfingar mættu til leiks og léku 4*9 holur þar sem bestu tveir hringirnir töldu. Keppnin var hörð og skorið gott eins og alltaf en úrslit mótsins urðu eftirfarandi.
1. Jón Hilmar Kristjánsson 24 pútt
2. Páll Ásmundsson 25 pútt (eftir bráðabana)
3. Guðni Þórir Walderhaug 25 pútt (eftir bráðabana)
4-5. Magnús Hjartarson. 25 pútt
4-5. Einar Gestur Jónasson 25 pútt
Næsta mót er áætlað laugardaginn 20. febrúar.
12.02.2016
Ólöf María Einarsdóttir, 16 ára kylfingur frá Dalvík hefur ákveðið að breyta um umhverfi og spila fyrir hönd Golfklúbbs Mosfellsbæjar árið 2016. Ólöf er einn efnilegasti kvenkylfingur Íslands og stefnir hún hátt í framtíðinni. Ólöf byrjaði að æfa golf þegar hún var 4 ára gömul en fyrst um sinn var golfið íþrótt númer tvö á eftir skíðaíþróttinni. 12 ára gömul valdi hún golfið sem aðalíþrótt og sér hún ekki eftir þeirri ákvörðun. Ólöf María hefur verið valin íþróttamaður Dalvíkurbyggðar síðastliðin tvö ár.
Ólöf stefnir á að komast í háskólagolf og í framhaldi af því er stefnan sett á mótaraðir þeirra bestu. Yfir vetrartímann æfir Ólöf golf að meðaltali 10-12 klst. á viku auk þess að fara í ræktina 3-4 sinnum. Á sumrin æfir hún golf og líkamsrækt í um 45 klst. á viku þannig að hún er frábær fyrirmynd í alla staði.
En afhverju skildi Ólöf hafa valið Golfklúbb Mosfellsbæjar?
Ég valdi GM af því að mig langaði að breyta til og flytja suður. GM varð fyrir valinu af því að mér finnst Hlíðavöllur mjög skemmtilegur og mig langar að spila hann oft. Einnig fór ég í æfingaferð með GM í fyrra og þar kynntist ég frábærum krökkum mér leist vel á þjálfarann.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar býður Ólöfu hjartanlega velkomna í klúbbinn.
10.02.2016
Fimmta og næst síðsta mót Liðapúttmótaraðar GM fór fram í kvöld miðvikudaginn 10. febrúar. Alls eru 12 lið sem taka þátt í mótinu og keppnin er afar jöfn og spennandi. Alls gilda 4 bestu mótin af 6 og því getur allt gerst þegar liðin fara að henda út verstu hringjunum sínum.
Skytturnar ungu áttu frábæran dag en þær léku á 97 höggum og eru með nokkuð afgerandi forystu sem stendur. Ásarnir eru þó innan seilingar og geta gert góða atlögu að sigrinum.
Allt getur þó gerst og verður spennandi að sjá hvernig síðasta púttkvöldið spilast en það fer fram miðvikudaginn 17. febrúar.