07.09.2022
Unglingamótaröð GSÍ árið 2022 er nú lokið. Sara Kristinsdóttir, Hjalti Kristján Hjaltason og Pamela Ósk Hjaltadóttir eru stigameistarar í sínum flokki.
Sara varð stigameistari í flokki 17-18 ára stúlkna en hún lék í öllum mótum ársins. Hún sigraði í fyrstu tveimur mótunum, varð önnur á næstu tveimur og í þriðja sæti á lokamótinu. Í 2. og 3. sæti í sama flokki urðu GM kylfingarnir Berglind Erla Baldursdóttir og Katrín Sól Davíðsdóttir.
Í flokki 15-16 ára stúlkna varð Auður Bergrún Snorradóttir í 3. sæti á stigalistanum. Auður Bergrún tók þátt á öllum fimm mótum tímabilsins. Hún lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni. Auður Bergrún varð tvívegis í öðru sæti á tímabilinu og tvívegis í því fimmta.
Pamela Ósk varð stigameistari í flokki 13-14 ára stúlkna. Pamela sigraði á fjórum mótum af alls fimm á tímabilinu og fagnaði Íslandsmeistaratitli í höggleik og holukeppni. Hún varð einu sinni í öðru sæti.
Hjalti Kristján varð stigameistari í flokki 12 ára og yngri drengja. Hjalti Kristján tók þátt á öllum fimm mótum tímabilsins. Hann sigraði á Íslandsmótinu í höggleik og varð annar á Íslandsmótinu í holukeppni. Hann varð einnig í öðru sæti á fyrsta móti tímabilsins.
Í flokki 12 ára og yngri stúlkna varð Eiríka Malaika í 2. sæti á stigalistanum. Eiríka Malaika tók þátt á þremur mótum af alls fimm og hún varð í fjórða sæti á Íslandsmótinu í höggleik og í öðru sæti á Íslandsmótinu í holukeppni.
Frábær árangur hjá okkar kylfingum og óskum við þeim innilega til hamingju