Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Hlíðavöllur opnar!

02.05.2024
Hlíðavöllur opnar!

Ágætu GM félagar.

Tekin hefur verið ákvörðun um að opna Hlíðavöll næstkomandi sunnudag, 5. maí.

Við höfum því lokað vellinum núna til þess að geta einbeitt okkur að undirbúning þar sem það eru ýmis verk sem þarf að vinna.

Veturinn er vonandi búinn að kveðja okkur og gott golfsumar framundan.

Rástímabókun opnar á morgun föstudag, 3. maí kl. 12:00.

Bjarni vallastjóri, Felix, Óli og Kolbrún hafa unnið mikið og gott starf í allan vetur og þá sérstaklega undanfarnar vikur við það að koma völlunum okkar í gott stand fyrir sumarið. Eiga þau stórt hrós skilið fyrir alla sínu vinnu í sem hefur svo sannarlega skilað árangri. Flatirnar á báðum völlum eru í virkilega góðu standi og sjaldan verið betri við opnun. Brautirnar eiga aðeins í land en rigningin í dag og vonandi á morgun, munu gera mjög mikið og græni liturinn að fara að ná í gegn.


Golfbúðin/afgreiðslan okkar á Hlíðavelli verður opin alla daga frá kl. 8:00 til 20:00 frá og með sunnudeginum.

Vellir klúbbsins verða til að byrja með eingöngu opnir fyrir GM félaga.

Vinnudagur á laugardaginn 4. maí. Hefst kl. 10:00

Undanfarin ár höfum við verið með vinnudag áður en við opnum, hann verður laugardaginn, 4, maí og hefst kl. 10:00. Við gerum ráð fyrir því að vera við vinnu í rúmar tvær klukkustundir. Eftir það verður boðið upp á súpu og brauð í golfskálanum okkar og svo fá allir þeir sem taka þátt í vinnudegi að spila völlinn. Við munum ræsa út á öllum teigum ca klukkan 14:00. Til að auðvelda okkur undirbúning þá biðjum við ykkur um að skrá ykkur á meðfylgjandi skjal. Þar getið þið einnig látið okkur vita ef þið eruð með séróskir varðandi spilafélaga að vinnudegi loknum :)

Skráning á vinnudag

Æfingasvæðið okkar opnar einnig á sunnudaginn. Við höfum því miður ekki geta opnað það fyrr þar sem það hefur verið talsvert næturfrost og því hætta að vatnslagnir í boltavélinni geti eyðilagst.


Við minnum á GLFR appið sem flest ykkar vonandi þekkja. Það er búið að endurbæta það talsvert og vonumst við til þess að það eigi eftir að bæta okkar þjónstu til ykkar umtalsvert og hvetjum við ykkur til þess að sækja appið og setja það upp í ykkar símum.

Smellið hér til að skoða GLFR

Í GLFR eru yfirlitsmyndir af okkar völlum ásamt nákvæmum mælingum. Vallarstarfsfólkið okkar merkir inn hvar holurnar eru á flötunum og því fáið þið ávallt nákvæma mælingu þaðan sem þið eruð að leika ykkar bolta.

Það er hægt að skrá skor fyrir allt að fjóra kylfinga í appinu og er það beintengt golfboxinu og uppfærist skorið því sjálfkrafa í forgjafarkerfið.

Innanfélagsmótaraðir GM!

Mótaraðirnar okkar fara fljótlega í gang og munum við auglýsa það nánar á næstu dögum.


Breyting á 4. braut!

Eins og fram kom um daginn þá höfum við samið við Mosfellsbæ um aukið landsvæði til þess að breyta eldri hluta vallarins. Nú er verið að vinna að hönnuninni og skipulagsvinnu sem á að klárast í sumar. Við ætlum svo að hefjast handa við framkvæmdir í byrjun árs 2025. Hluti af þessu er að stytta 4. brautina til þess að fjarlægja þá hætta sem hefur myndast vegna nýrra húsa í Súluhöfða. Við höfum því stytt brautina og verður hún spiluð sem par þrjú hola.