Mosfellsbær, Ísland
Föstudagur -3°C - 0 m/s

Golfbílar

6 nýir golfbílar á vallarsvæðum GM

Kauptu sumarkort eða klippikort á golfbíla hjá GM

Nú hefur GM fest kaup á sex glæsilegum, nýjum golfbílum í samstarfi við Höld sem verða í útleigu til félagsmanna og gesta í sumar. Nýlega var skrifað undir nýjan styrktarsamning Höldurs við GM og er þetta veigamikill hluti þess nýja samnings. Bílarnir verða á báðum vallarsvæðum klúbbsins. Fyrst um sinn verður einn staðsettur í Bakkakoti og 5 bílar á Hlíðavelli. Mögulega verða bílar færðir á milli svæða eins og þörf krefur.

Um er að ræða nýja bíla frá Club Car og eru þeir sérstaklega veglegir. Þeir eru búnir þannig að hægt sé að götuskrá þá og er búnaður þeirra því mjög góður – sérstaklega hvað varðar fjöðrun og aukahluti. Bílarnir eru rafmagnsbílar og eru afar sprækir og góðir. Þeir eru með öflugum rafhlöðum sem eiga að geta farið þrjá til fjóra 18 holu hringi á einni hleðslu. Þeir geta því gengið frá morgni til kvölds.

Sumarkort fyrir félagsmenn

Til sölu eru núna alls 10 sumarkort fyrir félagsmenn sem gilda á bílana. Hvert kort er með 70 hringi á golfbíl innifalið (að hámarki) og kostar sumarkortið 69.900 kr. Einnig geta hjón keypt sumarkort og er þá verðið 99.900 kr fyrir hjónin. Þá eru bæði hjón skráð sem leigutakar bílsins. Skilyrði er að um hjón eða sambúðaraðila sé að ræða.

Um er að ræða nokkuð hagstætt verð miðað við aðra golfklúbba en er það gert m.a. þar sem um ákveðna nýjung er að ræða. Til framtíðar verður reynt að stilla af verðinu þannig að hagstætt verði fyrir félagsmann að nýta þennan valkost fremur en að eiga sjálfir bíl. Sambærilegt fyrirkomulag hefur verið í öðrum golfklúbbum í nokkur ár, sem við tökum til fyrirmyndar, og mælst gríðarlega vel meðal félagsmanna. Að eiga og reka golfbíl hefur umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir utan kostnað við kaup og geymslu. GM býður því félagsmönnum sínum sem vilja/þurfa spila á golfbíl raunhæfan og góðan valkost.

Bílarnir eru í almennri útleigu en handhafar sumarkorta geta bókað bíla með 48klst fyrirvara. Ef bílar eru ekki í útleigu geta félagsmenn með sumarkort tekið þá án fyrirvara eftir samráð við afgreiðslu. Eingöngu skráðir handhafar sumarkorta hafa heimild til notkunar á bílunum og er það með öllu óheimilt að framselja eða gefa öðrum heimild til notkunar. Bíll er eingöngu afhentur þeim aðila sem er skráður fyrir sumarkorti ásamt því að hafa skráðan rástíma.

Skráning á sumarkort er með tölvupósti á golfmos@golfmos.is en við bendum áhugasömum aðilum á að hafa hraðar hendur því seld verða að hámarki 10 sumarkort.


Klippikort á stök skipti

Einnig verður hægt að kaupa 5 skipta klippikort á bílana. Með þeim er hægt að bóka bíl innan við 48 klst frá rástíma sínum. Ef bílar eru ekki í útleigu geta félagsmenn með klippikort tekið þá án fyrirvara eftir samráð við afgreiðslu. Klippikortin eru til sölu í golfskála GM á Hlíðavelli og í Bakkakoti. Stök útleiga mun kosta 4.900 kr.

Það er von okkar að þessi nýjung muni mælast vel fyrir enda með því aðgengi að golfbílum til útleigu á Hlíðavelli og í Bakkakoti stórbætt.


Gjaldskrá Golfbíla

Golfbíll - 1 hringur 4.900 kr
Golfbíll - 5 hringja klippikort 19.900 kr
Golfbíll - Sumarkort 69.900 kr
Golfbíll - Hjónasumarkort 99.990 kr