Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Hjalti í sigurliði Íslands á Nordic Cup 2024

22.04.2024
Hjalti í sigurliði Íslands á Nordic Cup 2024

Hjalti Pálmason í GM og landsliðskylfingur öldunga var í sigursveit Íslands á Nordic Cup 2024 sem haldið var á Spáni 17.-20. apríl sl., 12 lið tóku þátt. Mótið var haldið í fyrsta sinn og sem eins konar óopinbert Norðurlandamót fyrir sveitir skipaðar leikmönnum 40 ára og eldri.

Leikið var á tveimur völlum, Alhama Signature og Saurines, sem báðir eru hannaðir af Jack Nicklaus.

Til mótsins sendi Íslands þrjú fjögurra manna lið skipuð leikmönnum 50 ára eða eldri, Finnland tvö lið og Norðmenn eitt lið. Svíþjóð sendi sex lið til leiks, þrjú skipuð leikmönnum 40 ára og eldri og þrjú skipuð leikmönnum 50 ára eða eldri. Svíþjóð var eina landið sem sendi lið skipuð leikmönnum undir 50 ára aldri.

Fyrstu tvo dagana var leikinn 36 holu höggleikur og eftir það var liðunum skipað í þrjá fjögurra liða riðla eftir frammistöðu, A,B og C. Þar sem efstu liðin í A-riðli myndu keppa um sigurinn.

Ísland 1, skipað Hjalta, Jóni H. Karlssyni GR, Sigurbirni Þorgeirssyni GFB og Tryggva Trausasyni GSE, varð efst eftir höggleikinn og skipaði A riðil ásamt Noregi sem varð í öðru sæti, Svíþjóð 51 og Svíþjóð 41 sem urðu í 3. og 4. sæti.

Þá tók við holukeppni þar sem leiknir voru tveir einmenningsleikir og einn fjórleikur.

Ísland 1 lék í undanúrslitum við við liðið í fjórða sæti eftir höggleikinn, Svíþjóð 41, en Noregur sem varð í öðru sæti eftir höggleikinn lék við Svíþjóð 51. Ísland hafði betur í sinni viðureign 2,5-0,5. Hjalti vann sinn leik 3/2, Sigurbjörn vann sinn leik 2/1 og Jón H. og Tryggvi gerðu jafntefli. Norðmenn unnu Svíþjóð 51.

Í úrslitum léku því Ísland 1 og Norðmenn og hafði Ísland 1 betur 2-1. Hjalti vann sinn leik 5/4, Jón H. og Tryggvi unnu sinn leik 3/2 en Sigurbjörn tapaði sínum leik 3/2.

Ísland 1 er því meistari Norðurlanda í sveitakeppni öldunga 2024.

Ísland 3 endaði í 9. sæti og Ísland 2 endaði í 10. sæti.

Hér má sjá stöðuna eftir höggleikinn.

Við óskum íslenska liðinu og Hjalta innilega til hamingju með frábæran árangur!