Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Breyting á Hlíðavelli - samkomulag við Mosfellsbæ undirritað.

22.04.2024
Breyting á Hlíðavelli - samkomulag við Mosfellsbæ undirritað.

Í síðustu viku var undirritað samkomulag við Mosfellsbæ varðandi breytingu á eldri hluta Hlíðavallar. Þetta er stórt og mikið framfaraskref fyrir okkur í GM og horfum við virkilega björtum augum til framtíðar þar sem okkar markmið er að byggja hér upp eitt allra glæsilegasta golfsvæði landsins.

Samkomulagið felur í sér aukið landsvæði inn Leirvoginn þar sem við munum byggja þrjár nýjar brautir eins og sést á meðfylgjandi mynd. Edwin Roald golfvallahönnuður hefur unnið að þessum breytingum með okkur og munum við fljótlega boða til félagsfundar þar sem við kynnum þetta nánar.

Við munum strax í vor stytta núverandi fjórðu braut til þess að fjarlæga alveg þá hættu sem myndast þar vegna nálægðar við hús í Súluhöfða. Það er tímabundin aðgerð á meðan við klárum hönnun og framkvæmdir á þremur nýjum golfbrautum. Á myndinni hér að ofan má sjá fyrstu drög að nýjum holum við Leirvoginn. Byrjað verður á því að gera holur nr 5 og 6 á myndinni ásamt einni nýrri holu þar sem holur eitt og níu eru í dag. Þetta mun ekki hafa nein áhrif á leik á Hlíðavelli á meðan að á þessari vinnu stendur.

Við höfum átt í góðu samtali við fulltrúa Mosfellsbæjar undanfarna mánuði og þökkum við þeim kærlega fyrir gott samstarf og þeirra stuðning við Golfklúbbinn, framtíðin er svo sannarlega björt hjá okkur í GM!

Nú tekur við skipulagsvinna og það að fullhanna breytingarnar sem á að vera lokið í júlí næstkomandi og svo hefjumst við handa við framkvæmdir vonandi í upphafi árs 2025 og byrjum að spila inn á nýjar holur um mitt sumar 2026. Stefnt er að því að endurhanna og byggja upp allar 9 holurnar á eldri hluta vallarins samkvæmt hönnun Edwins Roalds.

Stefnt er að því að hafa opinn félagsfund í lok næstu viku og kynna þessar framkvæmdir.

Fulltrúar GM og Mosfellsbæjar undirita samkomulag um breytingar á eldri hluta Hlíðavallar.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Andrea Jónsdóttir, varaformaður GM undirrita samkomulag um breytingu á eldri hluta Hlíðavallar.

Frétt um samkomulagið á heimasíðu Mosfellsbæjar.