Mosfellsbær, Ísland

Valdís Þóra Jónsdóttir í þjálfarateymi GM

15.04.2021
Valdís Þóra Jónsdóttir í þjálfarateymi GM

Fyrr í dag undirritaði Valdís Þóra Jónsdóttir samning og verður hún hluti af okkar flotta þjálfara/golfkennarateymi.

Valdísi þarf vart að kynna fyrir íslenskum kylfingum þar sem hún hefur verið í allra fremstu röð íslenskra kylfinga undanfarin ár. Hún hefur á undanförnum árum verið með keppnisrétt á sterkustu mótaröð Evrópu í atvinnugolfi kvenna, LET Evrópumótaröðinni. Hún hefur þrívegis sigrað á Íslandsmótinu í golfi (2009, 2012 og 2017) og árið 2010 varð hún Íslandsmeistari í holukeppni.

Besti árangur Valdísar Þóru á LET Evrópumótaröðinni er þriðja sæti en hún hefur tvívegis endað í þriðja sæti á sterkustu mótaröð Evrópu. Það er jafnframt besti árangur sem íslenskur atvinnukylfingur hefur náð á atvinnumótaröð í efsta styrkleikaflokki. Hún var einnig í liði Íslands á Evrópumóti atvinnukylfinga sem sigraði á því móti í Glasgow í Skotlandi árið 2018. Í kjölfarið var liðið útnefnt sem lið ársins 2018 í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna.

Valdís Þóra var fyrsti atvinnukylfingurinn frá Íslandi sem náði að komast inn á Opna bandaríska atvinnumótið – en það gerði hún árið 2017.

Valdís tók þá ákvörðun nýverið að setja keppniskylfurnar á hilluna og einbeita sér að þjálfun og kennslu í golfi. Er það mikið fagnaðarefni fyrir okkur GM félaga að fá hana í okkar raðir. Valdís mun leggja sérstaka áherslu á þjálfun í okkar stelpuflokkum og er það okkar von að þetta muni efla það starf enn frekar. Þarna fá okkar ungu og efnilegu stelpur frábæran þjálfara og ekki síst góða fyrirmynd til þess að aðstoða sig við að ná framförum í iþróttinni.

Valdís Þóra mun einnig sinna einkakennslu sem og hópkennslu fyrir kylfinga í GM og munum við auglýsa það nánar fljótlega.

Bjóðum við Valdísi hjartanlega velkomna til okkar í GM og er hún frábær viðbót við okkar flotta teymi af þjálfurum.