Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Íslandsmot unglinga í höggleik - úrslit

19.08.2024
Íslandsmot unglinga í höggleik - úrslit

Íslandsmót unglinga kláraðist í gær þar sem leikið var á bæði Hlíðavelli og hjá NK á Nesvellinum.

14 ára og yngri léku í tveimur flokkum á Nesvellinum, 11 - 12 ára og 13 - 14 ára. Á Hlíðavelli var leikið í flokkum 15 - 16 ára og 17 - 18 ára.

Við áttum fjölmarga krakka sem tóku þátt eða samtals 27. 12 stelpur og 15 stráka.

Það er óhætt að fullyrða að okkar krakkar hafi staðið sig frábærlega og lönduðum við fjórum Íslandsmeistaratitilum af átta sem í boði voru. Fimmti titillinn tapaðist í bráðabana á holu 20. Sannarlega frábær árangur.

Í piltaflokki var það hann Ásgeir Páll Baldursson sem tryggði sér titilinn með frábærri spilamennsku á lokadegi og vann sinn flokk með einu höggi. Óskar Jóhann Sigurðsson átti einn flott mót og tryggði sér þriðja sætið með góðum lokahring. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þá Ásgeir og Ólaf með Jóni Reykdal úr GKG sem varð í 2. sæti.



Í stúlknaflokki 11 - 12 ára varð hún Eiríka Malaika Stefánsdóttir Íslandsmeistari og vann hún sinn flokk með talsverðum yfirburðum. Hún spilaði frábært golf alla dagana og því virkilega vel að þessum sigri komin.

Á myndinni hér að neðan má sjá Eiríku með Elísabetu Þóru og Þórey Bertu sem koma báðar frá Nesklúbbnum.

Eiríka ásamt þeim Elísabetu og Þórey


Í stúlknaflokki 13 til 14 ára var það hún Sara María Guðmundsdóttir sem varð Íslandsmeistari. Sara lék gott og stöðugt golf alla þrjá hringina og vann að lokum með 9 högga mun. Virkilega vel gert hjá Söru.

Hér að neðan má sjá Söru Maríu með þeim Elvu Maríu úr GK og Kötlu Maríu úr GR sem lentu í öðru og þriðja sæti.


Í stúlknaflokki 17 til 18 ára sigraði hún Auður Bergrún Snorradóttir. Auður spilaði frábært golf og endaði á að sigra mótið nokkuð örugglega. Hún var 10 höggum á undan næstu kylfingum. Jafnar í öðru sæti ásamt Unu Karen úr GKG voru þær Eva Kristindsdóttir og Heiða Rakel Rafnsdóttir, báðar úr GM. Virkilega flottur árangur hjá okkar stelpum.


Í piltaflokki 15 - 16 ára var Kristján Karl Guðjónsson í harðri baráttu um sigurinn sem endaði þannig að Óliver Elí Björnsson úr Keili og Kristján voru jafnir eftir þrjá hringi. Þá var haldið í bráðabana og var það hann Óliver sem landaði sigri á annari holu bráðabanans með glæsilegu fuglapútti á 9. braut. Hjalti Kristján Hjaltason lenti í fjórða sæti í þessum flokk með frábærri spilamensku, en hann er 14 ára og var því að spila flokk upp fyrir sig.

Hér að neðan má sjá Kristján Karl ásamt Ólver Elí og Arnari Daða Svavarssyni úr GKG sem varð í þriðja sæti.

Þetta er svo sannarlega frábær árangur hjá okkar krökkum sem og öllum okkar fulltrúm í þessum mótum. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá GM :)

Við óskum öllum sigurvegurum sem og öðrum verðlaunahöfum kærlega til hamingju með árangurinn.

Einnig viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í mótinu hjá okkur á Hlíðavelli. Þau stóðu sig öll virkilega vel, komu vel fram og gengu vel um völlinn okkar :)

Áfram GM!