Hjalti Pálmason í GM og landsliðskylfingur öldunga varð í 18. sæti á Evrópumeistaramóti eldri kylfinga 50 ára og eldri sem haldið var í Lúxemborg og lauk á laugardag. Var þetta í fyrsta sinn sem Hjalti tekur þátt í þessu móti.
Þetta var í 29. skiptið sem Evrópska golfsambandið (EGA) heldur þetta mót sem skipað var 144 bestu kylfingum Evrópu 50 ára og eldi bæði í karla- og kvennaflokki. Alls hófu leik 90 karlar og 54 konur frá 28 löndum.
Mótið var skipað mjög sterkum kylfingum þar á meðal þremur fyrrverandi sigurvegurum í karlaflokki og þreföldum sigurvegara í kvennaflokki. Sá karl sem var með lægstu forgjöfina var með +5.4 og kvennamegin var lægsta forgjöfin +2.5.
Leiknar voru 54 holur á hinum krefjandi Kikuoka velli sem er par 72 og 6084 metra langur af karlateigum og 5237 metrar af kvennateigum. Niðurskurður var eftir 36 holur og komust 54 efstu karlar og jafnir í því sæti áfram og 33 efstu konurnar og jafnar í því sæti áfram á lokadaginn.
Ásamt Hjalta, léku Sigubjörn Þorgeirsson GFB og Ragnheiður Sigurðardóttir GKG í mótinu fyrir hönd Íslands. Hjalti og Sigurbjörn komust í gegnum niðurskurðinn og endaði Hjalti í 18. sæti í mótinu eins og áður sagði á samtals 6 höggum yfir pari og Sigurbjörn í 44. sæti á samtals 14 höggum yfir pari. Ragnheiður náði ekki í gegnum niðurskurðinn, en aðeins munaði 3 höggum.
Frá vinstri: Sigurbjörn, Hjalti & Ragnheiður
Í karlaflokki sigraði Frakkinn Rodrigo Lacerda Soares á 3 höggum undir pari og í kvennaflokki sigraði Annick Riff frá Belgíu á 9 höggum yfir pari. Þess má geta að Rodrigo Lacerda sem varð fimmtugur fyrr á þessu ári sigraði á Evrópumeistaramóti kylfinga 25 ára og eldri árið 2020.
Lokastöðuna í mótinu má sjá hérna.
Kikuoka völlurinn er flottur og krefjandi