Aðalfundur Golfklúbbs Mosfellsbæjar fer fram næstkomandi fimmtudag, 24. nóvember í íÞróttamiðstöðinni Klett og hefst stundvíslega kl. 20:00.
Kosið verðum um þrjú sæti í stjórn GM til næstu tveggja ára og hafa eftirfarandi aðilar boðið sig fram, sett fram í stafrófsröð:
Andrea Jónsdóttir
Arna Rún Kristjánsdóttir
Elín Gróa Karlsdóttir
Steinunn Þorkelsdóttir
Steinþór Pálsson.
Hér að neðan eru kynningar á ofangreindum aðilum.
Andrea Jónsdóttir
Ég byrjaði að spila golf fyrir 10 árum síðan. Var vægast sagt mjög efins um að sportið myndi henta mér í upphafi, en ég hafði algjörlega rangt fyrir mér því að spila golf er best í heimi. Það eru alger forréttindi að hafa aðgang að frábærum vallarsvæðum Golfklúbbs Mosfellsbæjar í túnfætinum heima.
Svæðið allt er frábært og ótrúlega mikið og gott starf hefur verið unnið til að bæta aðstöðu enn frekar á liðnum árum. Ég býð mig fram til stjórnar klúbbsins til að leggja mitt af mörkum til að haldið verði áfram að gera enn betur og passa uppá að GM verði áfram skemmtilegasti golfklúbbur landsins.
Stemming er ekki sjálfgefin og mikilvægt að hlusta eftir hvað er að ganga vel og eins hvað má betur fara. Ég hef töluverða reynslu af setu í stjórnum bæði starfsmannafélaga og félagasamtaka og sat um tveggja ára tímabili í kvennanefnd GM.
Arna Rún Kristjánsdóttir
Ég (Arna Rún Kristjánsdóttir, f. 1998) sæki eftir kjöri í stjórn Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
Sem virkur félagsmaður í Golfklúbbi Mosfellsbæjar/Golfklúbbnum Kili síðastliðin 14 ár, tel ég mig þekkja starfsemi Golfklúbbsins eins vel og hægt getur talist. Undanfarin ár hefur klúbburinn vaxið gríðarlega og margir nýjir félagar eru af yngri kynslóðum og þykir mér æskilegt að stjórn golfklúbbsins beri þess merki. Vil ég því gefa kost á mér til setu í stjórn klúbbsins og leyfa með því rödd yngra fólksins að hljóma í starfsemi klúbbsins.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar er í dag einn stærsti og vinsælasti golfklúbbur landsins. Eftir stórkostlega uppfærslu á félagsaðstöðunni í Kletti auk sameiningar Golfklúbbsins Kjalar og Golfklúbbsins Bakkakots tel ég allar aðstæður og auðlindir fyrir hendi fyrir klúbbinn að verða enn öflugri. Til að svo geti orðið tel ég sérlega mikilvægt að virkja þann breiða hóp félagsmanna sem klúbburinn státar af í dag og að gefa með því fjölbreyttari hópi félagsmanna tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi rekstur klúbbsins.
Ég útskrifaðist síðastliðið vor frá Grand Valley State University með B.Sc. gráðu í tölfræði með áherslu á tryggingastærðfræði. Samhliða náminu stundaði ég golf með liði skólans sem keppti í næstefstu deild háskólagolfsins. Meðan á náminu stóð fékk ég tækifæri til að keppa og ferðast út um öll Bandaríkin og fá innsýn í hvernig golfvallarstarfsemi fer fram.
Eins og er stunda ég nám í Gagnavísindum (Data Science) við Háskólann í Reykjavík þar sem ég kappkosta að læra nýjustu tækni við gagnavinnslu. Samhliða náminu vinn ég hlutastarf í gagnavinnslu og innkaupum hjá Nespresso á Íslandi.
Ég er ákveðin, öguð, talnaglögg og hef ávallt unnið hart að settum markmiðum, hvort sem er að sameiginlegum markmiðum eða einstaklingsbundnum markmiðum.
Ég hef mikinn áhuga á að Golfklúbburinn okkar verði sá besti á landinu en til þess að svo geti orðið þarf að skapa umhverfi þar sem allir geti haft tækifæri til að láta ljós sitt skína. Ég vil og veit að GM getur hæglega orðið sá klúbbur sem helst ber að líta til, hvort sem horft er á ytri ásýnd eða innri starfsemi klúbbsins. Síðast en alls ekki síst hef ég umtalsverða þekkingu á starfsemi klúbbsins þar sem ég hef stundað sumarstörf frá 14 ára aldri. Síðastliðið sumar stóð ég vaktina í afgreiðslunni þar sem ég fékk tækifæri að heyra ýmsar skoðanir félagsmanna sem öllu jafna skila sér ekki til stjórnar. Að því sögðu, og með vísan til alls sem að framan greinir, tel ég mig vera frábæran valkost í stjórn Golfklúbbs Mosfellsbæjar.
Ég er tilbúin að vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins, standa föst á mínu og tala fyrir breiðan hóp félagsmanna.
Elín Gróa Karlsdóttir
Ég býð mig fram í stjórn Golfklúbbs Mosfellsbæjar til næstu tveggja ára. Rekstur Golfklúbbs Mosfellsbæjar hefur verið erfiður undanfarin ár, enda klúbburinn í mikilli uppbyggingu og klúbbmeðlimum fjölgað með tilheyrandi vaxtarverkjum. Ákveðinn viðsnúningur hefur verið í rekstri undanfarin 2 ár og margt gott verið gert en alltaf er hægt að gera betur. Ég vil leggja mitt af mörkum til að vinna að frekari uppbyggingu golfklúbbsins, betri þjónustu við hinn almenna iðkanda, eflingu barna – og unglingastarfsins og afrekskylfinga.Klúbburinn okkar er eftirsóttur í dag en til að viðhalda því þarf að halda vel á spöðunum og marka stefnu GM fyrir næstu ár svo við vitum í hvað átt við viljum stefna. Ég tel að sú stefna eigi ekki að vera eingöngu á höndum fárra stjórnarmeðlima og stjórnenda klúbbsins heldur að allir klúbbmeðlimir fái tækifæri til að koma að þeirri stefnumótun.
Mér þykir afskaplega vænt um golfklúbbinn minn og hef kynnst mörgu góðu fólki í kringum golfið, bæði iðkendum, þjálfurum og foreldrum barna sem stunda golf. Golfíþróttin er í mínum huga mikið fjölskyldusport og ákveðinn lífstíll, að minnsta kosti snýst allt um golf á okkar heimili, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Ég byrjaði að slá bolta á Hlíðavelli fyrir rúmum 20 árum þegar völlurinn var 9 holur, þá eltandi pabba minn á golfvellinum en byrjaði ekki fyrir alvöru í golfi fyrr en ég bjó á Sauðárkróki mun seinna. Við fjölskyldan gengum í GM 2016 þegar við fluttum aftur í bæinn, maðurinn minn og dóttir sem er núna 15 ára og hefur æft golf frá 6 ára aldri.
Ég er 54 ára viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með diplomagráðu frá Háskóla Íslands í Hagnýtum Jafnréttisfræðum og Opinberri stjórnsýslu. Í dag starfa ég sem Fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu. Bakgrunnur minn í störfum er úr bankageiranum í 12 ár, fjármálastjóri hjá Þjónustu- og rekstarsviði Reykjavíkur um tíma og forstöðumaður lánasviðs Byggðastofnunar og staðgengill forstjóra árin 2007 – 2016. Ég hef að auki starfað mikið í félagsmálum í gegnum tíðina, aðallega í tengslum við sveitastjórnarmál, bæði í Mosfellsbæ og á Sauðárkróki.
Steinunn Þorkelsdóttir
Ég heiti Steinunn Þorkelsdóttir og býð mig fram í stjórn GM. Ég er 53 ára Grunnskólakennari og með B.S próf í íþróttafræði. Ég bý og starfa í Mosfellsbæog búin að gera það síðan árið 1996. Ég byrjaði að stunda golf og gekk í golfklúbb Mosfellsbæjar eða sem hét þá golfklúbburinn Kjölur árið 2012 og er síðan þá búin að vera með golfbakteríuna. Við fjölskyldan stundum öll golf en drengurinn minn hefur æft og keppt fyrir GM síðan 2014 og maðurinn minn í mótanefnd til nokkurra ára. Stór partur af því að ég fór að stunda þessa frábæru íþrótt var hversu vel það var tekið á móti manni í hvort sem það var hinn almenni kylfingur eða starfsmenn golfklúbbsins. samheldnin og stemmingin í klúbbnum var það sem hreyf mig fyrst. Ég tók þátt í vetrarmótum og laugardagspúttum og vel flestu sem klúbburinn var með og hef gert síðan. Golfklúbbur getur aldrei verið betri en fólkið sem í honum er, þess vegna finnst mér svo mikilvægt að hlúa að fólkinu í klúbbnum halda áfram að vera skemmtilegasti golfklúbbur á landinu og ég mun svo sannarlega hafa það að leiðarljósi að í GM finnist fólki gott að vera. Við höfum um að ræða frábæran völl og klúbbhús sem ætti að hafa allt sem við þurfum, en betur má ef duga skal. Ég ætla gefa kost á mér því ég hef ástríðuna og kraft til að leggja mitt af mörkum að stjórnun klúbbsins og þjónusta við félagsmenn verði sem allra best.
Steinþór Pálsson
Ég býð mig fram til áframhaldandi setu í stjórn GM þar sem ég hef hefur verið stjórnarmaður sl. 5 ár en á þeim tíma hefur starfsemi félagsins verið umbreytt með góðum árangri á öllum sviðum.
Ég bý að mikilli stjórnunarreynslu og þekkingu s.s. á sviði stefnumótunar, fjármála, rekstrar og breytingastjórnunar sem hefur og getur nýst klúbbnum til áframhaldandi þróunar.
Ég starfa nú sem ráðgjafi, milligönguaðili, í málefnum ÍL-sjóðs, var áður meðeigandi hjá KPMG og stýrði þar stjórnendaráðgjöf, bankastjóri Landsbankans, framkvæmdastjóri hjá alþjóðlega lyfjafyrirtækinu Actavis og stjórnandi hjá Íslandsbanka, svo það helsta sé nefnt í mínum starfsferli. Ég er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og MBA frá Edinborgarháskóla í Skotlandi. Ég ólst upp í Mosfellsbæ og hef verið meðlimur í GM í fjölmörg ár.