Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

​MAGGA OG GUÐRÚN KLJÁST Í BÆNDAGLÍMUNNI!

29.08.2017
​MAGGA OG GUÐRÚN KLJÁST Í BÆNDAGLÍMUNNI!

Nú styttist óðum í hina árlegu Bændaglímu GM . Að þessu sinni eru það þær vinkonur Guðrún Leós og Magga Óskars sem taka að sér hlutverk bænda og slíta vináttuböndum í stutta stund á meðan. Guðrún mun fara fyrir bláu liði Óðalsbænda en Magga rauðu liði Kotbænda.

Þær vinkonur munu einbeita sér að því að efla og styrkja baráttuvilja síns búaliðs. Þó fá þær að þessu sinni að skipta sér eilítið meira af framgangi keppninnar en oft áður. Þær stöllur fá að:

  • Handvelja saman 6 pör eða 12 kylfinga í aðdraganda glímunnar
  • Raða völdum leikjum saman í holl
  • 10 sinnum mega þær láta kylfing endurtaka högg sitt
  • 10 sinnum mega þær pútta með kylfingi út á velli

Bændaglíma GM fer fram laugardaginn 30. sept á Hlíðavelli. Ræst verður út á öllum teigum kl. 10.00 en mæting er í Klett kl. 9.00. Boðið verður upp á ilmandi kjötsúpu í Vélageymslunni og gamla golfskálanum fyrir bændur en 104 pláss eru í mótið og ljóst að völlurinn verður þétt setinn af glöðum GM meðlimum.

Í Bændaglímunni eru leikinn holukeppin án forgjafar en raðað er eftir forgjöf. Leiknir eru 2 leikir á sitthvorum 9 holunum og eru einn punktur fyrir hvorn leik. Takist kylfingi að sigra báða sína leiki bætist við aukapunktur. Sigrar sá bóndi sem fleiri punkta hlýtur. Nándarverðlaun verða einnig á öllum par 3 brautum vallarins í boði MS.

Mótsgjald er 2.900 kr. en skráning í mótið hefst 12.00 mánudaginn 4. september á golf.is. Skráð verður á biðlista í mótið í afgreidsla@golfmos.is þegar skráning er full.