Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

NÝJA HÚSIÐ FÆR NAFNIÐ KLETTUR

30.06.2017
NÝJA HÚSIÐ FÆR NAFNIÐ KLETTUR

Golfklúbbur Mosfellsbæjar flutti nýverið starfsemi sína í nýja aðstöðu við Hlíðavöll. Um er að ræða glæsilegt 1200 m2 hús sem í framtíðinni mun hýsa alla aðstöðu klúbbsins; vetur, sumar, vor og haust. Efri hæð hússins hefur verið tekin í notkun í fyrsta áfanga en í næsta áfanga verður ráðist í að útbúa æfingaaðstöðu fyrir börn, ungmenni og almenna félaga á neðri hæð.

Stjórn GM ákvað að efna til nafnasamkeppni um nafn á hið nýja hús. Dómnefndina skipuðu þau Valgeir Magnússon, formaður, Georg Tryggvason, Jóhanna Hreinsdóttir, Gunnar Ingi Björnsson og Kolbrún G. Þorsteinsdóttir. Innsendar tillögur voru 271 en alls voru einstök nöfn 193 og sendu alls 91 aðilar inn nafn. Sannarlega frábær þátttaka í samkeppninni.

Eftir töluverða yfirlegu ákvað dómnefnd að húsið hlyti nafnið "Klettur". Telur dómnefnd að húsið beri nafn með rentu og að til framtíðar muni Golfklúbbur Mosfellsbæjar byggja framtíð sína í þessu húsi enda er gott að byggja á Kletti.

Alls áttu 8 einstaklingar tillögu um nafnið Klettur en þeir voru:

  • Birgir Guðbjörnsson
  • Björg Bjarnadóttir
  • Edda Herbertsdóttir
  • Eyjólfur Jónsson
  • Magnús Gunnarsson
  • Signhild Borgþórsdóttir
  • Þórhallur Kristvinsson
  • Þuríður Pétursdóttir

Dreginn var út sigurvegari í nafnasamkeppninni og var það Magnús Gunnarsson sem reyndist hinn heppni og hlýtur hann að launum sumarkort í GM sumarið 2017.

Um leið og við óskum honum til hamingju þökkum við kærlega fyrir allar innsendar tillögur.